Rúmlega tíu þúsund börn nýttu sér svokallað frístundarkort Reykjavíkurborgar á seinasta árið, en Íþrótta- og tómstundaráð borgarinnar samdi við 105 félög um aðild að verkefninu á seinasta ári. Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að um 400 milljónir króna  fari í verkefnið í ár. Alls voru 12.805 börn skráð á námskeið í kerfið sl. ár og af þeim var ráðstafað styrk vegna rúmlega tíu þúsund barna árið 2007.  Vonir stóðu til að allt að  65% aldurshópsins 6 til 18 ára myndi nýta sér þennan stuðning í fyrsta áfanga. Það markmið náðist ekki og ríflega 53% af aldurshópnum  6 – 18 ára sem eiga lögheimili í Reykjavík nýttu sér styrkinn. Reykjavíkurborg hefur nú ákveðið að tvöfalda styrkinn 2008 og verður hann 25 þúsund krónur á barn. Vonast forsvarsmenn borgarinnar til að um 70% barna og unglinga á aldrinum 6 – 18 ára nýti sér kortið á árinu 2008. „Við leggjum höfuðáherslu á að Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð meðal barna og unglinga í borginni varðandi þátttöku í skipulögðu félags,- menningar- og íþróttastarfi. Við fylgjumst líka grannt með að það leiði ekki til óeðlilegra hækkana á gjaldskrám félaganna eða öðrum kostnaði við iðkun,” segir Sólveig Valgeirsdóttir verkefnastjóri Frístundakorts ÍTR.