Af evrusvæðinu er að vænta nokkurra stórra hagtalna í vikunni, að sögn greiningardeildar Glitnis. Atvinnuleysistölur fyrir evrusvæðið í nóvember bárust í dag, en atvinnuleysi á svæðinu, sem hefur farið lækkandi frá árinu 2006, hélst óbreytt frá fyrra mánuði og mældist 7,2%.

Greiningardeildin segir að atvinnuleysi hefur ekki mælst svo lítið frá upptöku evrunnar.Endanlegar hagvaxtartölur fyrir þriðja ársfjórðung munu berast 9. janúar og stýrivaxtaákvörðunar Evrópska seðlabankans er að vænta 10. janúar.

"Verðbólga á evrusvæðinu mældist í lok síðustu viku 3,1% og er því vel yfir verðbólguviðmiði bankans en hann stefnir að því að halda verðbólgu undir, en þó sem næst 2%. Þrátt fyrir það er reiknað með óbreyttum vöxtum, en þeir eru nú 4%," segir greiningardeildin.

Spáir óbreyttum stýrivöxtum hjá Englandsbanka

Frá Bretlandi er einnig að vænta stýrivaxtaákvörðunar 10. janúar. Greiningardeildin spáir óbreyttum vöxtum líkt og á evrusvæðinu, en þeir eru 5,5%. Einnig er að vænta í vikunni smásölutalna og talna yfir viðskiptajöfnuð í nóvember, en almennt er búist við því að jöfnuðurinn versni frá fyrri mælingu.

Samdráttur á bandarískum húsnæðismarkaði

Birtar verða tölur yfir um húsnæðislánaumsóknir og fjölda fasteignakaupsamninga í Bandaríkjunum í vikunni, að sögn greiningardeildarinnar. "Í ljósi undangenginna vandræða tengdum húsnæðislánamarkaðinum þar í landi horfa markaðsaðilar mikið til þessara talna en tölur af bandarískum húsnæðismarkaði hafa sýnt fram á mikinn samdrátt, á seinni hluta síðasta árs. Þá verða tölur um utanríkisviðskipti í Bandaríkjunum birtar á fimmtudag," segir hún.

Rólegt um að litast með innlenda hagvísa

Nýhafin vika verður róleg hér á landi hvað varðar birtingu hagtalna, að sögn greiningardeildarinnar. "Nokkrar hagtölur verða birtar en við væntum þess að þær muni ekki hafa áhrif á markaðinn. Seðlabankinn mun birta tölur yfir gjaldeyrisjöfnuð bankastofnanna í desember, sem nam 462 milljörðum króna í nóvember.

Einnig birtir bankinn tölur yfir veltu á millibankamarkaði með bæði krónur og gjaldeyri. Þá verður birt yfirlit yfir hreinar eignir lífeyrissjóðanna í lok nóvember en þær voru 1.600 milljarða króna í lok október. Loks birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í desember í vikulok, en atvinnuleysi hefur verið með allra lægsta móti og mældist 0,8% í nóvember," segir greiningardeildin.