Hlutabréfavísitölur heims lækkuðu mikið í ágúst og náðu lækkanirnar sums staðar tveggja stafa tölu. Fjárfestar voru mjög áhyggjufullir en síðustu dagana í ágúst hækkaði hlutabréfaverð þrátt fyrir að engar sérstaklega markverðar fréttir hefðu verið birtar. Ber að nefna að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, tilkynnti að hagkerfi Bandaríkjanna væri smám saman að ná bata og að bankinn hefði úrræði til að örva hagvöxt ef á þyrfti að halda. Fjárfestar voru vongóðir um jákvæðari fréttir frá Ben Bernanke þess eðlis að bankinn hæfi aðgerðir til að örva frekar efnahagslíf Bandaríkjanna en þær væntingar stóðust ekki.

Skuldavandinn ærinn

Ástand evrusvæðisins hefur vakið áhyggjur margra og lækkaði hlutabréfaverð mest í Þýskalandi eða um 20%. Eggert Þór Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá IFS ráðgjöf, segir lækkanirnar tengjast óttanum við skuldavanda þjóðríkja og að skuldavandinn smitist út í minnkandi hagvöxt og einkaneyslu sem hefur svo áhrif á rekstur fyrirtækjanna. „Hins vegar hafa hlutabréf ekki verið ódýrari síðan snemma á árinu 2009 þegar hlutabréfaverð náði botni eftir bankakreppuna.“ Ottó B. Ottósson, sviðsstjóri á eignastýringasviði Íslenskra verðbréfa, og Stefán Gunnlaugsson, sérfræðingur á eignastýringasviði Íslenskra verðbréfa, segja ástæður mikilla lækkana hlutabréfa í ágúst vera margvíslegar. Meginástæðan sé versnandi efnahagshorfur í heiminum. Þetta sjáist best á því að hagvaxtarspár hafa verið lækkaðar mikið, einkum í Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta ásamt óvissu um ríkisfjármál og mikil skuldsetning nokkurra Evrópuríkja leiddi til mikillar lækkunar á hlutabréfum. Auk þessa beindu vandræði bandaríska stjórnkerfisins vegna skuldaþaksins sjónum fjárfesta að miklum skuldum bandaríska ríkisins og óvissu um getu þess að halda áfram á braut aukinnar skuldsetningar.

Samræmdar aðgerðir nauðsynlegar

Síðustu daga ágústmánaðar hefur hlutabréfaverð hækkað lítillega sem gefur fjárfestum aukna von. Slæmar fréttir berast frá Bandaríkjunum um mi n n k a n d i neyslu og beðið er eftir aðgerðum seðlabanka um allan heim þar sem nánast er ekki hægt að lækka vexti meira. Eggert segir þó mikla óvissu ríkja um horfurnar en það þurfi að leysa úr stórum skuldamálum þjóðríkja. Hættan á samdrætti með minnkandi arðsemi fyrirtækja sé yfirvofandi. „Enginn gerir sér grein fyrir hvert stefnir. Rekstur fyrirtækja hefur verið góður, þau hafa náð að auka tekjur eftir að hafa ráðist í miklar aðhaldsaðgerðir á árunum 2009 og 2010. Líklega er eina ráðið að leysa skuldakreppuna að fara að greiða niður skuldir.“ Ottó og Stefán segja að ekki hafi komið fram varanlegar lausnir sem markaðurinn hafi trú á. Trú markaðsins sé að skuldavandi þróaðra ríkja verði ekki leystur nema það leiði til lægri hagvaxtar á næstu árum. Auk þess bendi margt til þess að einhver lönd evrunnar þurfi að yfirgefa myntbandalagið með ófyrirsjánlegum afleiðingum fyrir þau og evrópska fjármálakerfið. Enn virðist ekki vera vilji hjá betur stæðum löndum evrusvæðisins til að taka á sig auknar byrðar til að hjálpa verr stöddum löndum þess. Þeir hafa trú á að hlutabréfaverð muni ekki lækka miklu meira en nú er. Ástæður þessa séu góð verðlagning hlutabréfa og mjög lágt vaxtastig