Alan Turing, einn af feðrum tölvunnar og frumkvöðull í dulmálsfræðum, hefur verið náðaður af Bretlandsdrottningu, en árið 1952 var hann dæmdur sekur fyrir að vera samkynhneigður maður. Þurfti hann að undirgangast meðferð sem kallast efnafræðileg gelding og mátti hann ekki lengur vinna við mál sem snertu öryggi ríkisins.

Dómurinn hefur lengi þótt breska ríkinu til skammar, enda voru fáir einstaklingar sem lögðu meira á vogarskálarnar í seinni heimsstyrjöld en Alan Turing. Vinna hans við að brjóta dulmálslykla Þjóðverja bjargaði fjölda hermanna bandamanna og er vart nokkur vafi að stríðið hefði varað lengur án hans.

Dómsmálaráðherra Bretlands, Chris Grayling, óskaði eftir því við drottninguna að hún veitti Turing náðun og var það gert. Turing féll fyrir eigin hendi árið 1954.

Frétt BBC um náðun Turing.