Ríkisstjórn Bandaríkjanna íhugar nú að leggja á allsherjar viðskiptabann með rússneskt ál í kjölfar loftárása Rússahers á Kyiv og aðrar úkraínskar borgir í vikunni. Verð á áli hafði hækkað um 7,3% þegar mest lét í dag en álverð hefur sjaldan tekið jafn miklum breytingum á einum degi.

Álverð stendur nú í rúmlega 2.300 dölum en fór upp í 2.400 dali þegar mest lét í dag, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Samkvæmt heimildum Bloomberg skoðar ríkisstjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta nú þrjá valkosti; allsherjar bann, að hækka tolla að því marki sem myndi ígilda viðskiptabanni eða að beita rússneska álframleiðandanum Rusal refsiaðgerðum. Fulltrúar Hvíta hússins sögðu að allir valkostir væru til skoðunar í þessum efnum.

Hlutabréf Alcoa Corp., móðurfélag Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði, hafa hækkað um meira en 5% í dag. Stöðva þurfti viðskipti með hlutabréf Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls, um tíma en þau hafa hækkað um 6% frá opnun markaða.

Rússneskt ál hefur lengi verið undanþegið viðskiptaþvingunum vegna mikilvægi þess í iðnaðarframleiðslu, þar á meðal í framleiðslu bíla og snjallsíma. Ál var því undanþegið í refsiaðgerðum ríkisstjórnar Biden í byrjun stríðsins en eftir átta mánaða stríðsrekstur eru fáir vöruflokkar eftir til að beita refsiaðgerðum á.

Rússland er næst stærsti álframleiðandi heims á eftir Kína. Rússneskt ál hefur vegið um 10% af heildar innflutningi Bandaríkjanna á áli í venjulegu árferði.