„Kosningarnar unnust á loforðum sem þorri þjóðarinnar hafði á tilfinningunni að væri innistæðulaus en nógu stór hluti ákveða að veðja á,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, um kosningatap flokksins í vor. Árni Páll var í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni fyrr í dag.

Árni Páll fór nokkuð hörðum orðum um núverandi ríkisstjórn sem hann sagði hafa algjörleg misst tök á verkefninu. „Hún hefur hvorki verið að efna kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins um skattalækkanir né heldur loforð Framsóknarflokksins um skuldaniðurfellingar. Hættan er auðvitað sú að þessi ríkisstjórn haldi áfram að hanga saman á flokkshagsmunum þessara tveggja flokka.“

Árni Páll sagði svör ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar óboðlegar fyrir þjóðina. Þó svo að frumvarp um upplýsingasöfnun Hagstofunnar yrði samþykkt í næstu viku þá myndu þær upplýsingar ekki liggja fyrir fyrr en í mars eða apríl. Samt hefði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra boðað lausnir í nóvember. Að sama skapi hafi forsætisráðherra sagt að niðurfellingarnar muni ekki kosta 300 milljarða þrátt fyrir að hann hafi sjálfur sagt að hann hafi ekki talað við kröfuhafa. „Öll þessi svör eru orðin fullkomlega óboðleg fyrir þjóðina og þau eru farin að setja íslenska þjóð í mikla hættu. Ráðleysi ríkisstjórnarinnar setur okkur í hættu.“