Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, segir að eftir því sem næst verði komist séu það kröfur ASÍ um 20.000 króna persónuafslátt til þeirra sem hafa mánaðarlaun á bilinu 150.000 til 300.000 krónur á mánuði sem standi hvað fastast í samninganefnd ríkisins. Fulltrúar ASÍ og ríkisins hittust á fundi í dag þar sem til stóð að fara yfir þessi mál. "Við verðum að fá svör við þessu til þess að geta ákveðið það endanlega hvort við förum þessa leið í samfloti eða hvort hvert aðildarsamband fari sína eigin leið í kjaraviðræðum. En við ætlum að láta reyna á þetta."

Ingibjörg Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ. "Í framhaldi af því hafa verið ræddar takmarkanir á skerðingum og jaðarsköttum og það myndi auðvitað kosta sitt líka. En eftir því sem ég veit best er það aðferðin sem stendur mest í stjórnvöldum," segir Ingibjörg.

Hún segir að viðræður við Samtök atvinnulífsins hafi verið mjög takmarkaðar og það helgist ekki síst af því að ASÍ hefur ekki þótt eðlilegt að fara djúpt inn í þær viðræður án þess að vita hver aðkoma ríkisins verði. Það velti því allt á því að skýr svör fáist frá ríkinu.