Auglýst er eftir nýjum forstjóra Ríkiskaupa í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu í dag. Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, mun skipa í starfið til fimm ára.  Halldór Ó. Sigurðsson hefur gengt starfinu frá ársbyrjun 2012 en hann verður 67 ár á þessu ári.

Í auglýsingunni segir að leitað sé „að framsýnum leiðtoga með brennandi áhuga á að bæta þjónustu og rekstur ríkisins“.

Ríkiskaupum sé ætlað að stuðla að því að fjármunir séu nýttir á samfélagslega ábyrgan hátt sem tryggi hagsæld landsins og góða þjónustu við almenning. Forstjórinn muni taka virkan þátt í umbreytingarferli og innleiðingu aðgerða þvert á stofnanir ríkisins ásamt því að stýra stofnuninni og bera ábyrgð á rekstri hennar, þjónustu og árangri.

Í auglýsingunni segir að leitað sé eftir einstaklingi með meistarapróf á háskólastigi sem nýtist í starfi. Þá þurfi umsækjendur að ahfa árangursríka reynslu af stjórnun, rekstri, stefnumótun og áætlanagerð. Færni og reynsla af umbótavinnu og breytingarstjórnun, sannfærandi samskiptahæfni og leiðtogahæfileikum sé nauðsynleg. Þá er reynsla af opinberri stjórnsýslu og alþjóðasamstarfi talin kostur. Færni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku er nauðsynleg.