Ameríska þjóðaröryggisstofnunin mun hafa hlerað 33 milljónir símtala í Noregi á þrjátíu daga tímabili. Þetta sýna gögn sem Edward Snowden lak í fjölmiðla. Norska Dagbladet greinir frá þessu. Ekki er útilokað að njósnað hafi verið bæði fyrir og eftir það tímabil sem gögnin sýna. Skjölin sem Snowden lak ber titilinn Norway – Last 30 days og vísar í tímabilið 10. desember 2012 til 8. Janúar 2013.

Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, krefst þess að Bandaríkjamenn leggi öll spil á borðið varðandi þessar njósnanir. „Ég veit ekki til þess að það hafi verið neinar slíkar njósnir í gangi, eins og nú er lýst,“ segir Stoltenberg í samtali við norska ríkisútvarpið.

Á vef norska ríkisútvarpsins segir að Snowden hafi nú þegar lekið upplýsingum sem bendi til þess að Bandaríkjamenn hafi njósnað í Þýskalandi, Frakklandi, á Spáni, í Brasilíu og á Indlandi. Þetta hafi valdið pólitískum óróa og tortryggni í garð Bandaríkjanna.