Hlutabréfamarkaðir voru nánast við núllið við lok markaða í Bandaríkjunum í dag.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar lækkuðu verslunarkeðjur talsvert í ljósi minnkandi einkaneyslu en á móti kom að fjármála- og tryggingafélög hækkuðu lítillega sem hélt hlutabréfavísitölunum við núllið í annars litlum viðskiptum.

Nasdaq vísitalan stóð í stað við lok markaða, Dow Jones lækkaði um 0,1% og S&P 500 hækkaði um 0,1%.

Viðmælendur Bloomberg telja að Bandaríkjaþing samþykki í vikunni nýjan björgunarpakka og telur fréttaveitan að fjárfestar haldi að sér höndum þangað til.

Tryggingafélagið Hartford Financial Services hækkaði um 20% í dag þrátt fyrir að hafa tilkynnt um tap upp á 2,75 milljarða Bandaríkjadali á síðasta ári en tapið var mun minna gert hafði verið ráð fyrir auk þess sem talið er líklegt að félagið fái að njóta fyrirgreiðslu um neyðarlán frá bandarískum yfirvöldum.

Í kjölfarið hækkuðu öll tryggingafélög innan S&P 500 vísitölunnar um 2,3%.

Hráolíuverð lækkaði lítillega í dag en við lok markaða kostaði tunnan af hráolíu 39,86 Bandaríkjadali og hafði þá lækkað um 0,8% frá opnun markaða.