Bandaríski stúdentalánasjóðurinn SLM Corp. tilkynnti í gær að hann hygðist safna 2,5 milljörðum dollara í almennu hlutafjárútboði. Sjóðurinn hefur orðið fyrir skakkaföllum vegna samninga um að kaupa hlutabréf í sjálfum sér í framtíðinni, en í stað þess að hækka hefur gengi bréfa í sjóðnum lækkað og hann því tapað á veðmálinu.

Sjóðurinn, sem almennt er kallaður Sallie Mae vestra, tilkynnti að hann hygðist nota tvo milljarða af hinu aukna hlutafé til að standa skil á skuldum vegna fyrrnefndra viðskipta. Það er hærri upphæð en greinendur höfðu búist við, því þeir höfðu í síðustu viku reiknað út að tap sjóðsins næmi 1-1,6 milljörðum dollara vegna samninganna.

Tilkynningin kom eftir lokun markaða í New York í gær, þegar gengi bréfa sjóðsins var í 22,13 dollurum á hlut. Í viðskiptum eftir lokun lækkaði verðið niður í 20,69 dollara á hlut, um 6,5%.