Icesave-samningarnir geta ekki veitt breska eða hollenska tryggingarsjóðnum aukinn forgang eða rétt umfram aðra kröfuhafa til úthlutunar úr þrotabúi Landsbankans. Samningarnir binda því ekki hendur skiptastjóra eða annarra kröfuhafa við meðferð og úthlutun fjármuna úr þrotabúinu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í lögfræðiáliti Andra Árnasonar hrl. og Helgu Melkorku Óttarsdóttur hdl. Álitið var unnið fyrir forsætisráðuneytið. Það er í heild sinni birt á vef ráðuneytisins.

Þar segir að íslenskir dómstólar eigi að leysa úr ágreiningi við skiptastjóra, komi slíkur ágreiningur upp, á grundvelli íslenskra laga.