Björgólfur Thor Björgólfsson tekur undir með frænda sínum, rithöfundinum Guðmundi Andra Thorssyni, og segist ósáttur við dönsku heimildamyndina Thor Saga sem RÚV sýndi á sunnudagskvöld. Í myndinni voru danskættaði athafnamaðurinn Thor Jensen og Björgólfur bornir saman.

Björgólfur skrifar á vef sinn, btb.is , að myndin hafi verið fjarri væntingum hans. „Ég stóð í þeirri trú að áherslan yrði fyrst og fremst á langafa okkar, Thor Jensen. Hins vegar fékk ég engu ráðið um útkomuna, fremur en aðrir sem samþykktu að koma fram í myndinni,“ segir Björgólfur.

Hann heldur áfram: „Eftir að ég varð þess áskynja að myndin hefði vikið svo mjög frá því sem mér var upphaflega sagt ákvað ég að vera ekki viðstaddur frumsýningu hennar í Kaupmannahöfn í september. Ég ætlaði mér aldrei að vera í aðalhlutverki í myndinni og er ósáttur við hvernig það myndefni, sem fjölskylda mín lét í té, var notað úr öllu hófi. Mér finnst það rýra myndina hve mikið vægi nýliðnir atburðir hafa, á kostnað þess að fram náist góð heildarsýn yfir liðna tíð.“

Guðmundur sagði í samtali við vefmiðilinn Eyjan í gær að faðir sinn Thor Vilhjálmsson og systir hans Helga sem komu fram í myndinni hafi sömuleiðis staðið í þeirri trú að myndin ætti að fjalla um Thor Jensen.