*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 22. nóvember 2011 10:57

Björgólfur ekki sáttur við Thors saga

Björgólfur Thor Björgólfsson hélt að Thor saga hafi átt að fjalla um langafa hans. Sömu sögu segir Guðmundir Andri Thorsson.

Ritstjórn
Björgólfur Thor Björgólfsson
Haraldur Jónasson

Björgólfur Thor Björgólfsson tekur undir með frænda sínum, rithöfundinum Guðmundi Andra Thorssyni, og segist ósáttur við dönsku heimildamyndina Thor Saga sem RÚV sýndi á sunnudagskvöld. Í myndinni voru danskættaði athafnamaðurinn Thor Jensen og Björgólfur bornir saman.

Björgólfur skrifar á vef sinn, btb.is, að myndin hafi verið fjarri væntingum hans. „Ég stóð í þeirri trú að áherslan yrði fyrst og fremst á langafa okkar, Thor Jensen. Hins vegar fékk ég engu ráðið um útkomuna, fremur en aðrir sem samþykktu að koma fram í myndinni,“ segir Björgólfur.

Hann heldur áfram: „Eftir að ég varð þess áskynja að myndin hefði vikið svo mjög frá því sem mér var upphaflega sagt ákvað ég að vera ekki viðstaddur frumsýningu hennar í Kaupmannahöfn í september. Ég ætlaði mér aldrei að vera í aðalhlutverki í myndinni og er ósáttur við hvernig það myndefni, sem fjölskylda mín lét í té, var notað úr öllu hófi. Mér finnst það rýra myndina hve mikið vægi nýliðnir atburðir hafa, á kostnað þess að fram náist góð heildarsýn yfir liðna tíð.“

Guðmundur sagði í samtali við vefmiðilinn Eyjan í gær að faðir sinn Thor Vilhjálmsson og systir hans Helga sem komu fram í myndinni hafi sömuleiðis staðið í þeirri trú að myndin ætti að fjalla um Thor Jensen.