Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tjáði sig um rekstur og hlutafjárútboð Play við Túrista í dag. Hann segir að uppgjör Play fyrir þriðja fjórðung hafi komið stjórnendum Icelandair á óvart „enda finnst okkur það ekki í samræmi við upplýsingagjöf flugfélagsins, hvort sem það var í kauphöllinni eða fjölmiðlum. Við áttum von á mun sterkara uppgjöri“.

Play tilkynnti í síðustu viku að áætlanir um rekstrarhagnað á síðari helmingi ársins, sem félagið ítrekaði samhliða uppgjöri annars fjórðungs í ágúst, myndu ekki standast. Jafnframt réðst Play í 2,3 milljarða króna hlutafjáraukningu eftir að hafa lýst því yfir fyrr í ár að það hygðist ekki sækja nýtt hlutafé á næstunni.

„Þá voru stjórnendur Play jákvæðir varðandi næstu vikur og mánuði og tveir af þremur mánuðum uppgjörstímabilsins liðnir. Endanleg niðurstaða kom því á óvart. Þau hjá Play höfðu líka margsinnis sagt að lausafjárstaðan þann 30. júní yrði sú lægsta sem myndi sjást. Þess vegna er rekstrarniðurstaðan og sú staðreynd að nú eigi að auka hlutafé ekki í neinum takti við það sem hafði komið fram,“ sagði Bogi við Túrista.

Hann tók þó fram að aðstæður fyrir flugfélög væru krefjandi, ekki síst í Norður-Evrópu. Spurður um ólíkar áherslur í tilkynningum félaga á kostnað og tekjumyndun, svaraði Bogi að síðari liðurinn væri mikilvægari, sérstaklega í núverandi rekstrarumhverfi þar sem kostnaður er að hækka hjá öllum.

„Það væri ekkert mál að fjölga sætunum um borð og leggja niður margt af því sem við erum að gera í þjónustunni og þannig lækka einingakostnaðinn. Það myndi samt skila sér í mun verri afkomu því það passar ekki við umhverfið sem við erum í.“

Play truflar þau meira en ég átti von á“

Túristi leitaði viðbragða hjá Birgi Jónssyni, forstjóra Play. Hann furðaði sig á ummælum Boga og svaraði honum fullum hálsi.

„Ég hef ekki áður séð forstjóra skráðs fyrirtækis segja svona um annað fyrirtæki og ekki er ég með Icelandair á heilanum eða held að velgengni Play sé á kostnað þeirra. Það er alveg pláss fyrir tvö sterk flugfélög en það er greinilegt að Play truflar þau meira en ég átti von á,“ sagði Birgir við Túrista.

„Við erum með lægri kostnað, hærri sætanýtingu og erum stundvísari, fyrir utan það að við höfum náð stórum hluta af heimamarkaðinum. Það er því kannski skiljanlegt að þetta hreyfi við þeim og að hann sjái hvað sé að gerast þegar við erum að komast í fullan rekstur og tekjurnar og leiðarkerfið að vaxa.“

Birgir ítrekaði einnig fyrri skilaboð um að flugfélagið hafi ekki ráðist í hlutafjáraukninguna af nauðsyn heldur vildu stjórnendur Play styrkja stöðu félagsins.

„Það þurfti ekki að koma til neinnar hlutafjáraukningar en við vildum styrkja félagið einmitt til að þagga niður í svona röddum og senda skilaboð um að við hefðum styrk til að fullnýta þá góðu stöðu sem við höfum náð, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Maður sækir peninga þegar maður þarf þá ekki – því maður fær þá ekki þegar maður þarf þá,“ sagði Birgir við Túrista.