Bandaríski lyfjarisinn Pfizer, sem vinnur að framleiðslu á nýju bóluefni við kórónuveirunni sem veldur Covid 19 sjúkdómnum ásamt þýska líftæknifyrirtækinu BioNTech, segir bráðabirgðaniðurstöður sýna að bóluefnið geti virkað á 90% notenda.

Er um að ræða mun meiri árangur en væntingar voru um, en til að uppfylla skilyrði stjórnvalda víða um heim um kaup á bóluefninu var lágmarkið sett í 50% árangur af bóluefni. Gengi bréfa Pfizer hefur hækkað um nærri 14% á fyrirmarkaði síðan upplýst var um niðurstöðurnar, en bréf BioNTech hafa hækkað um ríflega fjórðung.

Áður var talið að fyrstu bóluefnin myndu ná um 60 til 70% árangri í að gefa notendum ónæmi fyrir veirunni, svo „Meira en 90% er ótrúlegt,“ hefur Bloomberg eftir Ugur Sahin, forstjóra BioNTech. „Þetta sýnir að hægt er að stýra Covid-19,“ sagði hann sömuleiðis og kallaði árangurinn sigur vísindanna.

Rannsóknir á svokölluðum þriðja og síðasta fasa klínískra tilrauna, það er tilrauna á fólki, standa enn yfir hjá fyrirtækinu, en þátttakendur í þeim eru 43.538 sjálfboðaliðar um heim allan.

Niðurstöðurnar nú eru eins og áður segir byggðar á bráðabirgðarannsókn á 94 þátttakendum sem hafa síðan smitast af Covid 19, en tilraunin mun halda áfram þangað til 164 einstaklingar hafa smitast til að sjá áhrifin.

Jafnframt þarf að meta öryggi bóluefnisins áður en hægt verður að markaðssetja það, en félögin telja sig geta framleitt um 1,3 milljarða skammta af bóluefninu fyrir árslok 2021.

Þess má geta að fráfarandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, lét ekki sitt eftir liggja að fagna niðurstöðum tilrauna fyrirtækisins: