Fimm nýir starfsmenn hafa bæst við starfsmannahóp Borgarleikhússins, þau Guðrún Haraldsdóttir, Ingi Bekk, Pálmi Jónsson, Steinar Snæbjörnsson og Viðar Jónsson.

Guðrún Haraldsdóttir
Guðrún Haraldsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Guðrún Haraldsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri í markaðsdeild. Guðrún er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og var að ljúka meistaranámi í stjórnun með áherslu á nýsköpun frá EADA Business School í Barcelona. Guðrún starfaði áður í tæplega fjögur ár í markaðsdeild Icelandair og var þar helst í stafrænni markaðssetningu.

Ingi Bekk
Ingi Bekk
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ingi Bekk er nýr ljósahönnuður en hann útskrifaðist með gráðu í ljósahönnun frá Royal Central School of Speech and Drama í London árið 2013. Hann hefur frá útskrift unnið sem ljósa- og myndbandshönnuður fyrir sviðslistir um allan heim, meðal annars hjá Royal Shakespeare Company, Burgtheater Wien og Schaubühne þar sem hann vann með Katie Mitchell. Ingi hefur einnig hannað fjölda verkefna fyrir tónlistarmenn á borð við Blur og Backstreet Boys.

Pálmi Jónsson
Pálmi Jónsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Pálmi Jónsson er einnig nýr ljósahönnuður í Borgarleikhúsinu. Pálmi er ljósa- og myndbandshönnuður sem starfað hefur víða síðustu ár bæði sem sjálfstætt starfandi hönnuður og fyrir hinar ýmsu lista- og menningarstofnanir. Hann hannaði lýsingu fyrir Club Romantica, Stórskáldið og Helga Þór rofnar hjá Borgarleikhúsinu. Þá hefur hann gert myndbönd fyrir listamenn á borð við Valdimar og Reykjavíkurdætur.

Steinar Snæbjörnsson
Steinar Snæbjörnsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Steinar Snæbjörnsson hefur verið ráðinn deildarstjóri ljósadeildar. Steinar er vélstjóramenntaður frá Menntaskólanum á Ísafirði. Hann starfaði sem verkefnastjóri hjá Exton í 14 ár og kom að flestum verkefnum þeirra á þessu tímabili, var hann meðal annars verkefnastjóri yfir tónleikum Justin Biebers, Fiskidögum árin 2016 - 2019 og Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2018.

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Viðar Jónsson hefur verið ráðinn deildarstjóri smíðaverkstæðis. Viðar útskrifaðist með B.A. gráðu í myndlist og hönnun frá Escola Massana í Barcelona árið 2006. Frá árinu 2007 starfaði hann í Þjóðleikhúsinu sem sviðsstjóri, leikmyndasmiður og málari. Hann hefur smíðað þar og málað fjölmargar leikmyndir en gengur nú til liðs við Borgarleikhúsið.