Ernst & Young (EY) hefur frestað áformum um að aðskilja endurskoðunar- og ráðgjafarhluta alþjóðlega fyrirtækisins vegna deilna um hversu stór hluti af skattaráðgjöfinni eigi að vera áfram innan endurskoðunarfyrirtækisins.

Julie Boland, framkvæmdastjóri EY í Bandaríkjunum, sem var valin til að stýra EY eftir fyrirhuguðu uppstokkunina, tjáði meðeigendum á fjarfundi í gær að breyta þurfi samkomulaginu, samkvæmt heimildarmönnum Financial Times. Starfsemin í Bandaríkjunum vegur 40% af 45 milljarða dala árlegri veltu samstæðunnar og hefur því mikið vægi í viðræðunum.

Í umfjöllun FT segir að ummæli Boland hafi komið stjónendum ýmissa aðildarfélaga EY í opna skjöldu. Margir meðeigendur óttast frekari tafir á uppstokkuninni, sem var tilkynnt í maí síðastliðnum, eða jafnvel að hún falli upp fyrir.

Í bréfi til starfsmanna sagði Carmine Di Sibio, forstjóri EY á alþjóðavísu, að stjórendur félagsins muni verja næstu vikum í að reyna að leysa þennan hnút.

EY hafði áformað að meirihlutinn af skattaráðgjöfinni rynni inn í ráðgjafarhlutann í kjölfar uppstokkunarinnar. Fyrir vikið yrði minnihluti af sérfræðingum í skattamálum eftir í endurskoðunarhlutanum.

EY sagðist í tilkynningu eiga í viðræðum við stærstu aðildarfélög til að ákveða endanlega útfærslu á uppstokkuninni sem fékk nafnið „Project Everest“.

„Þetta samkomulag er flókið og verður nýtt sem vegvísir fyrir breytingar í starfsgreininni og því er mikilvægt að við tökum réttar ákvarðanir.“