*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 18. nóvember 2004 13:11

Efnahagshorfur á Norðurlöndum nokkuð bjartar

Ritstjórn

Framundan eru nokkuð bjartar horfur um hagvöxt á öllum Norðurlöndunum, en mismunandi þó. Þannig er reiknað með að hagvöxtur verði hæstur á Íslandi um 5,5 % og lægstur í Danmörku eða rúmlega 2% árið 2004. Á næsta ári er gert ráð fyrir að hagvöxturinn glæðist eilítið á Norðurlöndum þar sem Ísland verður áfram í fararbroddi með tæplega 5% en Danmörk reki lestina með 2,5%. Þessar hagvaxtarhorfur á Norðurlöndum eru nokkuð hærri en meðaltal hagvaxtar á Evru-svæðinu en ívið lægri en meðaltal OECD gefur til kynna.

Þessar upplýsingar ásamt öðrum má sjá í nýútkominni skýrslu norrænu
efnahagsnefndarinnar, Ekonomiska utsikter i Norden 2005.

Það sem einkennir núverandi uppsveiflu efnahagslífsins á Norðurlöndum er
kröftugur vöxtur framleiðni vinnuafls. Hins vegar virðist vera minni eftirspurn
eftir vinnuafli og þar af leiðandi meiri tímatöf núna hvað snertir lækkun
atvinnuleysis. Þetta fyrirbrigði hefur verið kallað "jobbless growth" í alþjóðlegri umræðu um efnahagsmál. Aftur á móti hefur meðalatvinnuleysi á
Norðurlöndum verið nokkuð lægra í samanburði við Evru-svæðið og OECD
og reiknað er með að svo verið áfram á þessu og næsta ári.

Í hagstjórn leggja öll Norðurlöndin ríka áherslu á stöðugleika í verðlagsmálum og aðhaldssemi í ríkisfjármálum. Verðbólga hefur verið undir 2% nema á Íslandi og Noregi á undanförnum árum. Reiknað er með að hún verði hvað lægst í Svíþjóð og Danmörk en hæst á Íslandi á næsta ári. Mikill framleiðnivöxtur á Norðurlöndum mun að líkindum leggja töluvert að mörkum við að halda aftur af verðbólgunni á næstu árum. Horfur í fjármálum hins opinbera benda til þess að afkoman verði jákvæð á öllum Norðurlöndum árið 2005.