Eimskip hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Daalimpex beheer B.V. í Hollandi en fyrir átti Eimskip 40% hlut. Daalimpex er eitt stærsta frystigeymslufyrirtæki í Evrópu og rekur sex frystigeymslur í Hollandi.

Í frétt Eimskips kemur fram að kaupin á Daalimpex styrkja verulega stöðu Eimskips í frystiflutningum í Evrópu og rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á frystiþjónustu á meginlandi Evrópu. Á síðastu mánuðum hefur Eimskip tekist að verða leiðandi aðili í frystigeymslum á alþjóðavísu með kaupum á Innovate og Corby í Bretlandi, Atlas Cold Store í Kanada og nú Daalimpex í Hollandi.

Velta Daalimpex er áætluð 30 milljónir evra eða tæpir 2,8 milljarðar á yfirstandandi ári. Rekstarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður um 20% af veltu eða 6 milljónir evra sem er um 560 milljónir króna á árinu. Rekstur og efnahagur Daalimpex kemur inn í rekstur Eimskip frá 1. janúar 2007. Kaupverð er ekki uppgefið en kaupin eru fjármögnuð með handbæru fé.

Eimskip eignaðist 40% hlut fyrir um ári síðan. Daalimpex hafði verið í eigu og undir stjórn Piet Blankendaal frá stofnun árið 1976. Þann 1. janúar lét Piet Blankendaal af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins og Erice van der Ham tók við. Hún kemur til með að starfa áfram sem framkvæmdastjóri félagsins. Stjórnendateymi félagsins er kraftmikið og starfar hjá Daalimpex með nýjum eigendum. Starfsmenn Daalimpex eru 120.

Heildar frystigeymslupláss Daalimpex eru 250 þúsund tonn en það er 25 sinnum það kæligeymslupláss sem Eimskip hefur á Íslandi.

Allar fasteignir og lóðir Daalimpex fylgja með í kaupunum en þær eru metnar á um 70 milljónir evra eða 6,5 milljarða króna.

Frystigeymslur Daalimpex geyma aðallega sjávarafurðir, mjólkurafurðir, kjöt og kjúklingaafurðir, djúsþykkni, ávexti og grænmeti. Ört vaxandi hluti starfseminnar felst í geymslu og dreifingu á matvælum og köldum réttum fyrir stórmarkaði í Hollandi.

Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips: ?Við höfum átt mjög gott samstarf við stjórnendur Daalimpex frá því við komum inn í félagið og þetta skref tryggir enn frekar sterka stöðu félagsins á meginlandi Evrópu. Við höfum sett okkur markmið um að byggja upp þjónustu í kringum kæligeymslur á meginlandi Evrópu. Daalimpex er eitt af stærstu kæligeymslufyrirtækjum í Evrópu og því teljum við mjög mikilvægum áfanga náð.?

Áætlanir fyrir árið 2007 gera ráð fyrir að velta Eimskip verði 1.150 milljónir evra sem er meira en tvöföldun frá árinu 2006. Áætlanir gera ráð fyrir að EBITDA verði 115 milljónir evra á árinu 2007 sem er einnig tvöföldun frá fyrra ári. Rekstur Daalimpex er ekki inni í áætlunum fyrir árið 2007.