Heildarkostnaður við úttekt breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg SPI á íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfinu, sem unnin var fyrir menningar- og viðskiptaráðuneytið, nam tæplega 51 þúsund pundum, eða sem nemur um 8,8 milljónum króna. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Í skýrslunni segir m.a. að fyrir hverja krónu sem fjárfest hafi verið í endurgreiðslukerfinu á tímabilinu 2019-2022 hafi heildararðsemi fyrir íslenskt samfélag numið 6,8 krónum. Íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfið sé í fremstu röð á heimsvísu en samskonar endurgreiðslukerfi eru til staðar í yfir hundrað löndum og ríkjum.

Í svari menningar- og viðskiptaráðuneytisins er bent á að samkvæmt lögum nr. 76/2022 (lög um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi) beri ráðherra að framkvæma úttekt á endurgreiðslukerfinu. „Ráðherra skal láta óháðan aðila gera úttekt á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, þar á meðal hagrænum áhrifum þeirra og samfélagslegum ávinningi. Þá skal úttektin fjalla um hvernig til hafi tekist við hækkun á hlutfalli endurgreiðslu fyrir stærri verkefni. Úttektinni skal lokið fyrir árslok 2024 og niðurstöður hennar birtar opinberlega,“ segir í ákvæði sem sett var til bráðabirgða í ofangreind lög. Lagabreytingin var samþykkt af Alþingi sumarið 2022.

Samkvæmt svari ráðuneytisins skiptist kostnaður við skýrslugerðina niður í fjórar greiðslur. Þegar hafi verið greiddar 6.570.724 króna auk þess sem gera megi ráð fyrir að síðasta greiðslan muni nema um 2,2 milljónum króna miðað við gengi dagsins. Hér að neðan má sjá töflu sem sýnir skiptingu greiðslnanna fjögurra.

Greiðslur menningar- og viðskiptaráðuneytisins vegna skýrslu Olsberg SPI

Greiðslur GBP ISK
Fyrsta greiðsla 12.500 2.095.125
Önnur greiðsla + Hagstofa 12.500 2.309.224
Útl. kostn. v/Hagstofu 725
Þriðja greiðsla 12.500 2.166.375
Fjórða greiðsla (ógreitt-áætlað) 12.500 2.200.000
Samtals greiðslur 50.725 8.770.724

Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á kvikmyndaráðstefnu sem menningar- og viðskiptaráðuneytið stóð fyrir í Hörpu undir yfirskriftinni Aukum verðmætasköpun í kvikmyndagerð á Íslandi til framtíðar sem fram fór fyrir tæplega tveimur vikum.

Viðskiptablaðið spurðist einnig fyrir um heildarkostnað ráðuneytisins af ráðstefnuhaldinu. Í svari ráðuneytisins við þeirri fyrirspurn kemur fram að heildarkostnaður við kvikmyndaráðstefnuna í Hörpu hafi numið 2.108.035 króna með virðisaukaskatti. Þar af hafi kostnaður við aðstöðu og streymi í Hörpu numið 1.146.917 krónum.

Samanlagður kostnaður menningar- og viðskiptaráðuneytisins vegna skýrslunnar og kynningu á henni nam því tæplega 10,9 milljónum króna.