Fréttir af verktakageiranum hafa ekki verið upp á marga fiska undanfarið enda blasir svo gott sem stöðnun við þegar núverandi framkvæmdum lýkur á hinum almenna byggingarmarkaði.

Fátt hefur þó heyrst frá verkfræðistofum landsins sem starfa við hlið verktakanna, en ef marka má Guðmund Þorbjörnsson, framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar Línuhönnunar, er engin lágdeyða fram undan á þeim bænum.

„Það sem ráðið hefur ferðinni á hinum almenna byggingarmarkaði undanfarin ár er, auk stærri framkvæmda, fyrst og fremst þær breytingar sem urðu á íbúðalánamarkaðnum og það gífurlega fjármagn sem bankarnir höfðu til ráðstöfunar á þessum árum. Í okkar umhverfi og hjá öðrum stórum verkfræðistofum eru verkefnin svo fjölbreytt og viðskiptavinaflóran margvísleg að niðursveiflan hefur ekki enn náð tilfinnanlega til okkar. Ríkisfyrirtæki, sveitarfélög og stærri orkufyrirtæki eru veigamiklir viðskiptavinir hjá okkur og þar eru menn ekki eins á bremsunni og í byggingargeiranum.

Stór verkefni í iðnaðargeiranum hafa einnig verið í gangi. Uppbyggingunni í kringum álver Alcoa og virkjun fyrir austan er nú að ljúka, en líkur eru á áframhaldandi verkefnum á því sviði á næstu árum. Ýmis verkefni í orkugeiranum eru komin á undirbúningsstig og áframhaldandi vinna er fram undan í uppbyggingu grunngerðarkerfisins, m.a. tengd samgöngum, skipulagi og umhverfi. Allt eru þetta verkefni sem verkfræðifyrirtæki koma mjög snemma að og eru mikilvæg fyrir okkur,“ segir Guðmundur, en bætir þó við að það sama gildi ekki um alla á markaðnum.

______________________________________

Nánar er rætt við Guðmund í helgarviðtali Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .