Farfuglaheimilin í Laugardal og á Vesturgötu 17 í Reykjavík hlutu umhverfisverðlaun Ferðamálstofu 2010 fyrir markvissa umhverfisstefnu og sjálfbæran rekstur. Farfuglaheimilin í Reykjavík eru einu umhverfisvottuðu gististaðirnir á höfuðborgarsvæðinu og einu gististaðir landsins með Svansvottunina, umhverfismerki Norðurlandanna.

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru veitt í 16. sinn í gær en þau hafa verið veitt árlega frá 1995 því fyrirtæki sem þykir hafa staðið sig best í umhverfismálum innan ferðaþjónustunnar. Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála, afhenti Stefáni Haraldssyni, formanni Farfugla verðlaunin við athöfn á Grand Hótel Reykjavík. Við sama tækifæri var einnig kynnt nýtt gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar sem hlotið hefur nafnið VAKI.

Fram kemur m.a. í rökum dómnefndar að farfuglaheimilin í Reykjavík séu einu umhverfisvottuðu gististaðirnir á höfuðborgarsvæðinu og líklega á landinu öllu ásamt Hótel Hellnum. Það vó einnig þungt við ákvörðun dómnefndarinnar að bæði farfuglaheimilin eru með Svaninn, opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Slík vottun gerir strangar kröfur til þeirra sem hana hljóta og eru farfuglaheimilin í Reykjavík einu gististaðirnir hér á landi sem fengið hafa Svansvottunina.