Nýsköpunarfyrirtækið Rebutia er eitt af þeim fyrirtækjum sem tekur þátt í viðskiptahraðlinum Start Up Reykjavík. Fyrirtækið er stofnað af þeim Heiðrúnu Ósk Sigfúsdóttur, Önnu Gunnarsdóttur og Baldri Leví Atlasyni. Rebutia er forrit sem greinir líkamsgerð fólks og ákvarðar hvers kyns föt henta því. Að sögn Heiðrúnar, eins stofnenda fyrirtækisins, er mikil þörf fyrir forrit af þessu tagi. „Við höfum fengið gríðarlega góðar viðtökur. En við erum í stöðugri þróun og leggjum mikla áherslu á það. Við höfum undanfarið verið að vinna með viðskiptavinum okkar og greint hvers konar fólk sækist eftir þessari þjónustu.“

Rebutia virkar þannig að notendur skrá sig inn á vefsíðunni therebutia.com og útbúa sinn eigin prófíl. Að því loknu velja þeir þær teikningar sem lýsa þeirra líkams- og andlitsgerð best. Síðan velur forritið þau föt sem best henta notendum.

„Við erum í samstarfi við fjöldann allan af fyrirtækjum en þar má helst nefna Michael Kors, Amini Bing og Revolve. Þegar þú kaupir þjónustu af síðunni okkar þá færðu föt frá þessum vörumerkjum.“

Heiðrún segir að hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað þegar Anna, einn af stofnendum Rebutia, kom auga á tækifæri í stílistabransanum. „Hún Anna hefur unnið sem stílisti í yfir 20 ár og verið mjög eftirsótt. Hún hefur hjálpað fjölda fyrirtækja að velja föt á starfsfólk sitt en einnig einstaklingum víða í viðskiptalífinu. Henni datt þá í hug að það væri frábært að geta gefið fleiri einstaklingum tækifæri á að nýta sér þjónustu stílista og út frá því varð hugmyndin af Rebutia til.“

Hún bætir við að það hafi verið mikil þörf á markaðnum fyrir fyrirtæki af þessu tagi. Sérstaklega þar sem að netverslun með föt verður alltaf sífellt vinsælli.

„Þetta getur gagnast svo ótal mörgum. Til dæmis bara konum sem eru kannski að koma úr barneignarleyfi og eru að fara aftur á vinnumarkaðinn. Líkaminn þeirra er auðvitað búinn að breytast og fötin sem hentuðu áður gera það kannski ekki lengur.“

Heiðrún bætir við að það hafi þó tekið mörg ár að þróa forritið í samstarfi við forritara. „Það sem gerir forritið okkar einstakt er að við erum ekki einungis að finna réttu stærðirnar fyrir fólk heldur að finna nákvæmlega þau föt sem henta fólki best út frá stíl, persónuleika og líkamsgerð.“ Hún bætir við að sumt fólk gleymi því að sum föt henti ekki ákveðnum líkamsgerðum. „Til dæmis ef fólk er með breiðar axlir þá eru ákveðin föt sem henta þeim ekki og forritið okkar finnur út úr þessu fyrir fólk og sparar því töluverðan tíma.“

„Við vorum að setja í loftið nýja uppfærslu og erum í Beta-prófunum. Ég vil því hvetja alla til að fara inn á síðuna okkar, therebutia.com, prófa þetta forrit og gefa okkur endurgjöf.

Allir okkar viðskiptavinir hafa verið gífurlega ánægðir með forritið en jafnframt gefið okkur góð ráð um hvað megi þar betur fara. Við viljum halda áfram að þróa forritið til að mæta þörfum notenda okkar,“ segir Heiðrún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .