Indverski forsætisráðherrann Narendra Modi kíkti í óvænta heimsókn til Pakistans síðasta föstudag til að hitta þarlendan kollega sinn, Nawas Sharif. Þetta er fyrsta heimsókn indversks forsætisráðherra til nágrannaþjóðarinnar í meira en áratug.

Modi bað um að fá að heimsækja Pakistan örfáum klukkustundum áður en hann ætlaði að snúa heim frá ferð í Afganistan og vekur þessi heimsókn von um að nágrannarnir gætu loksins stigið skref í átt að friði eftir þrjú stríð og meira en 65 ár af fjandskap.

Sharif faðmaði Modi við lendingu og saman fóru þeir með þyrlu að fjölskylduóðali þess fyrrnefnda. Fyrr um daginn hafði Modi hringt í Sharif til að óska honum til hamingju með afmælið og spurði í leiðinni hvort hann mætti stoppa við í Pakistan á heimleið, sagði utanríkisráðherra Pakistans, Aizaz Chaudhry. Var þeirri beiðni tekið fagnandi.

Modi og Sharif ræddu saman í um 90 mínútur og átu saman kvöldverð áður en indverski forsætisráðherrann hélt heim. Meðal þess sem ákveðið var á fundinum var að styrkja samstarf ríkjanna tveggja og að andrúmsloftið á milli yrði bætt.

Modi og Sharif höfðu áður rætt stuttlega saman á loftslagsráðstefnu í París á dögunum þar sem þeir lýstu yfir vilja sínum til að bæta samband landanna eftir áratuga langt samband vantrausts og skæruhernaðar. Þá ræddu þeir einnig um hið umdeilanlega Kashmir hérað, sem bæði lönd vilja meina að sé þeirra.