Verkalýðsfélög Alitalia munu ræða við ítölsk stjórnvöld í dag um björgunaraðgerðir fyrir flugfélagið og um fækkun starfa hjá félaginu. Atvinnumálaráðherra Ítala hefur látið hafa eftir sér að hann telji að svo gæti farið að færri en 5.000 störf tapist.

Alitalia sótti um gjaldþrotavernd á föstudag, en hún tryggir með dómsúrskurði vernd gegn lánadrottnum. Félagið tapar nú sem svarar 2 milljónum evra á dag og lifir á 300 milljóna evra láni frá ítalska ríkinu. Sú lántaka er nú til rannsóknar hjá yfirvöldum ESB í Brussel, sem telja að hún gæti brotið gegn ríkisstyrkjaákvæðum ESB.

Viðræður verkalýðsfélaga Alitalia eru taldar vera skref í átt til endurfæðingar félagsins sem smærra flugfélag en nú er.

Talið er að hópur 16 ítalskra fjárfesta undir forystu Roberto Colaninno muni lýsa yfir áhuga sínum á að kaupa félagið í þessari viku. Búist er við að Ítalirnir séu tilbúnir að greiða 300-350 milljónir evra fyrir eignir Alitalia.

Einnig eru British Airways, Air France og Lufthansa talin hafa áhuga á Alitalia.