Litlar breytingar hafa orðið á stjórn Bakkavarar Group þrátt fyrir þann ólgusjó sem fyrirtækið hefur gengið í gegnum og sviptingar í hluthafahópnum.

Á aðalfundi félagsins í síðasta mánuði voru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir kjörnir í aðalstjórn ásamt Ásgeiri Thoroddsen. Ágúst er forstjóri Bakkavarar en Lýður stjórnarformaður félagsins. Nýir menn í stjórnina frá hruni eru þeir Bjarni Þórður Bjarnason og Halldór Bjarkar Lúðvígsson, sem situr þar í krafti kröfuhafa. Katrín Pétursdóttir í Lýsi og Hildur Pedersen sem sátu í stjórninn árið 2008 eru hins vegar á bak og burt.

Athygli vekur að þeir Erlendur Hjaltason og Sigurður Valtýsson voru endurkjörnir í varastjórn ásamt Guðrúnu Rut Eyjólfsdóttur, konu Lýðs Guðmundssonar.

Aðrir í varastjórn eru Guðmundur Ingvi Sigurðsson og Þórður Ólafur Þórðarson.

Þeir Sigurður Valtýsson og Erlendur Hjaltason voru eins og kunnugt er forstjórar Existu, móðurfélags Skipta, VÍS og fleiri félaga. Þá var félagið stærsti hluthafi Bakkavarar Group og Kaupþings áður en bankinn fór á hliðina. Þeir hættu báðir hjá Existu í apríl fyrir tveimur árum eftir að kröfuhafar félagsins gengu að félaginu.

Vilhjálmur Bjarnason sagði fundinn nöturlegan

Fram kemur í fundargerð frá aðalfundi Bakkavarar í maí síðastliðnum, þar sem m.a. var ákveðið að leyfa þeim Ágústi og Lýð að kaupa fjórðungshlut í Bakkavör, að Vilhjálmur Bjarnason, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður Samtaka fjárfesta, hafi óskað eftir því að taka til máls. Hann sagði fundinn nöturlegan, afkomuna lélega og gagnrýndi að stjórnin héldist óbreytt þrátt fyrir það sem félagið hafi farið í gegnum. Þá sagðist hann vona að félagið eigi sér viðreisnarvon, sem verði til hagsbóta fyrir alla hluthafa en ekki bara suma þeirra.

Bakkavör tapaði 85,6 milljónum punda á síðasta ári, jafnvirði 17,3 milljarða íslenskra króna. Árið 2010 nam tapið 13,6 milljónum punda, jafnvirði 2,7 milljarða króna.

Ekki kemur fram í fundargerðinni að nánar hafi verið fjallað um gagnrýni Vilhjálms.