General Motors Co. mun á heimssýningunni World Expo sem opnuð verður í Shanghai í Kína í mái kynna nýstárlega lausn á umferðarþunga og mengun í borgum í framtíðinni. Hönnuðir GM horfa fram til næstu 20 ára með tveggja hjóla og tveggja sæta rafknúna ökutækið sitt sem þeir kalla Electric Networked Vehicle, eða EN-V.

Sumar gerðir þessa tækis eru ekki ósvipaðar mótorhjólahjálmi í útliti og er apparatið knúið Segway Personal Transporter vélbúnaði. Hámarkshraði EN-V verður 25 km á klukkustund og er það knúið litlum lithium-ion rafhlöðum. Sýn hönnuða GM er að ökutækið verði búið margvíslegum skynjurum, myndavélum og staðsetningarbúnaði og geti haft samskipti hvert við annað til að forðast árekstra.

Hefur GM smíðað 12 frumgerðir af þrem útgáfum af tækinu og telja þetta geta verið svar við umferðaþrengslum og mengunarvanda stórborganna. Árið 2030 er áætlað að 1,2 milljarður ökutækja silist um gotur og torg heimsbyggðarinnar en á árinu 2007 töldust ökutækin vera 844 milljónir talsins samkvæmt tölum Motor & Equipment Manufacturers Association. Eftir 20 ár er talið að um 60% jarðarbúa muni búa í borgum. Í stórborgum fara um 30% af eldsneyti ökutækja í leit að bílastæðum.