Í lok síðasta árs voru 41 mál í kæruferli til lögreglu vegna gruns um meiri háttar brot á lögum og reglum um gjaldeyrismál.

Frá þessu er greint í ársskýrslu Seðlabanka Íslands sem hefur á sínum snærum sérstakt gjaldeyriseftirlit sem sett var á fót sem sérstök deild innan bankans haustið 2009. Deildinni er skipt niður í þrjár deildir; undanþágudeild, eftirlits deild og rannsóknardeild. Fram kemur í ársskýrslu Seðlabankans að 27 mál vegna meintra brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál hefðu verið tilkynnt frá eftirlitsdeild til rannsóknardeildar á síðasta ári og 9 mál frá undanþágudeild. Þá voru 46 mál tekin til rannsóknar innan rannsóknardeildar.

Eins og áður hefur komið fram hafa fjórir einstaklinar nú verið ákærðir af Sérstökum saksóknara grunaðir um brot á lögum um gjaldeyrishöft. Þar er um að ræða hið svokallaða Aserta máls sem vísar til sænska félagsins Aserta AB sem fjórmenningarnir tengdust. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og í janúar 2010 var haldinn sérstakur blaðamannafundur að frumkvæði Seðlabankans í höfuðstöðvum Ríkislögreglustjóra þar sem fjallað var um málið. Málið hefur verið til rannsóknar í rúm þrjú ár.

Eins og Viðskiptablaðið greind frá í morgun eru þetta fyrstu ákærurnar sem gefnar eru út vegna meintra brota á gjaldeyrislögum en fjölmörg mál hafa verið til rannsóknar.