Eitt það atriði sem vekur hvað mest athygli í samskiptum olíufélaganna er hvernig þau meðhöndluðu útboð en á árinu 1996 óskuðu ýmsir allstórir viðskiptavinir olíufélaganna eftir tilboðum í olíuviðskipti sín. Meðal viðskiptavina sem óskuðu tilboða voru Reykjavíkurborg fyrir hönd Strætisvagna Reykjavíkur, Malbikunarstöðvar Reykjavíkur og Vélamiðstöðvar Reykjavíkur. Þá buðu Ríkiskaup út olíuviðskipti Landhelgisgæslunnar.

Í skýrslu Samkeppnisstofnunar kemur fram í september 1996 hittust forstjórar allra olíufélaganna til að ræða þau útboð sem áður er getið. Þar kom forstjóri Skeljungs með tillögu um að félag hans fengi þau viðskipti sem Reykjavíkurborg og Landshelgisgæslan buðu út en hin félögin fengju bætur í formi hlutdeildar af framlegð Skeljungs af viðskiptunum. Skeljungur hafði þessi viðskipti áður en þau voru boðin út.

Á fundi félaganna voru lagðar fram tillögur að því hvaða verð hvert þeirra biði vegna útboðanna. Tillögurnar áttu að tryggja það að eldsneytisviðskipti Reykjavíkurborgar og Landhelgisgæslunnar yrðu áfram hjá Skeljungi. Eftir að nokkrar breytingar voru gerða á upphaflegu tillögunni buðu olíufélögin í viðskiptin í samræmi við samkomulag sem þau gerðu. Á grundvelli hins samræmda tilboðs fékk Skeljungur viðskipti Reykjavíkurborgar en Landhelgisgæslan hafnaði öllum tilboðum þar eð lítill munur var á þeim. Stofnunin hélt því áfram viðskiptum við Skeljung.

Á árinu 1998 greiddi Skeljungur hinum félögunum, Olís og Olíufélaginu, fjárhæð vegna þessa ólögmæta samnings um Reykjavíkurborg. Í tengslum við samráð olíufélganna um gerð tilboða vegna þeirra útboða sem áður er
lýst gerðu félögin með sér samkomulag um að ræðast við um öll útboð. Þetta gerðu félögin og ræddust við, tvö eða fleiri, um m.a.;

- útboð dómsmálaráðuneytisins í október 1996,
- útboð Ríkiskaupa á smurþjónustu í nóvember 1996,
- útboð Granda í mars/apríl 1997,
- útboð Flugleiða í apríl 1996 og 1997,
- útboð Vestmannaeyjabæjar í apríl 1997,
- útboð ÍSAL í september 1997,
- útboð eða verðkönnun vegna fyrirhugaðrar magnesíumverksmiðju í
september 1997,
- útboð Norðuráls árið 1997,

- útboð Flugfélags Íslands í apríl 1998,
- fyrirhugað útboð dómsmálaráðuneytisins 1998,
- útboð eða verðkönnun Landssímans í október 1998,
- útboð Skanska Dredging í apríl 1999,
- útboð Íslenska járnblendifélagsins í febrúar 2000 og
- útboð Reykjavíkurborgar í október 2001.