„Ég gekk í Framsóknarflokkinn áðan. Fékk mér göngutúr, labbaði niðrá Hverfisgötu, fyllti út eyðublað og fékk mér kaffibolla," segir Guðmundur Steingrímsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sem þar með hefur skipt um flokk.

Hann segist þó ekki vera á leið í framboð á næsta flokksþingi framsóknarmanna. Hann vonast þó til þess að öðlast atkvæðisrétt á þinginu, sem fram fer þar næstu helgi.

Framsóknarhjarta Steingríms ánægt með breytingarnar

Guðmundur kveðst aðspurður telja að hið „gamla framsóknarhjarta" föður síns, Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, hafi glaðst yfir breytingunum.

„Við höfum alltaf talað mikið saman um pólitík og auðvitað er hann ánægður með þetta, en hann studdi mig líka þegar ég fór í Samfylkinguna. Það hefur alltaf verið gott að leita ráða hjá honum og tala við hann um pólitík."

Afi Guðmundar, Hermann Jónasson, var einnig formaður Framsóknarflokksins.

Ákvörðun tekin eftir vandlega íhugun

Guðmundur segir að ákvörðunin um að fara úr Samfylkingunni yfir í Framsóknarflokkinn hafi verið tekin eftir vandlega íhugun. Hún eigi sér dálítinn aðdraganda. „Maður hefur horft upp á þjóðfélagið fara á aðra hliðina og forsendur stjórnmálanna hafa algjörlega breyst."

Mikil þörf sé fyrir endurmat í þjóðfélaginu og fyrsta skrefið sé að byrja á sjálfum sér.

Þá segist hann vera orðinn ósáttur við ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Hún hafi ekki brugðist nægilega vel við kröfum um skýrari afstöðu til helstu viðfangsefna og lýðræðislegri vinnubrögð. Það sé ekki í anda stefnu Samfylkingarinnar, eins og hann hafi skilið þá stefnu.

Þegar slíkt blasi við snúist spurningin um að að kvitta undir áframhaldandi atburðarás eða standa upp og gera annað. Hann hafi valið síðarnefnda kostinn.

Ætlar ekki að skipa sér í neinar fylkingar

Hann kveðst í grunninn vera sammála mörgu í stefnu Framsóknarflokksins. Hann hafi auk þess fylgst með flokknum alla tíð og tengst honum.

Flokkurinn leggi áherslu á mörg klassísk gildi, eins og samvinnu, sem eigi vel við nú á tímum. Þá sé í flokknum ákveðinn skynsemisþráður og öfgaleysi, sem eigi brýnt erindi við þjóðina. Flokkurinn sé síðast en ekki síst frjálslyndur flokkur sem eigi að geta komið mörgu til leiðar í krafti þess.

Hann segist aðspurður ekki vilja lýsa yfir stuðningi við neinn einn frambjóðanda í formannsstól á komandi flokksþingi. „Ég ætla ekki að láta það verða mitt fyrsta verk að skipa mér í fylkingu innan Framsóknarflokksins," segir hann og bætir því við að brýnt sé að framsóknarmenn myndi sterka samstöðu.