Smásölusamstæðan Hagar skilaði 5.044 milljóna króna hagnaði á síðasta fjárhagsári sem lauk 29. febrúar síðastliðinn. Til samanburðar hagnaðist félagið um 4.949 milljónir árið áður. Hagar

Stjórn Haga mun leggja til á aðalfundi félagsins þann 30. maí að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 50,0% af heildarhagnaði ársins eða 2.522 milljónir króna sem samsvarar 2,3 krónum á hlut. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Vörusala Haga, móðurfélags Bónuss, Hagkaups og Olís, nam samtals 173,3 milljörðum króna á síðasta reikningsári og jókst um 7% milli ára. Framlegð samstæðunnar jókst um 16% milli ára og nam 36 milljörðum króna. Sem hlutfall af tekjum jókst framlegð úr 19,1% í 20,8% milli ára, sem Hagar rekja til starfsemi Olís og sveiflum í heimsmarkaðsverði olíu.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um rúman einn milljarð milli ára og nam 13.063 milljónum króna Afkomuspá stjórnenda fyrir síðasta rekstrarár, sem var hækkuð í tvígang frá því að hún var fyrst kynnt, gerði ráð fyrir að EBITDA yrði á bilinu 12,9-13,4 milljarðar króna.

„Rekstur ársins gekk heilt yfir vel og má rekja afkomu umfram upphaflegar spár til aukinna umsvifa hjá öllum rekstrareiningum Haga auk sterkari afkomu hjá Olís en upphaflega var gert ráð fyrir. Góð aðsókn var í allar verslanir samstæðunnar á árinu, og þá einkum í dagvöruhluta samstæðunnar þar sem bæði seldum stykkjum og heimsóknum viðskiptavina fjölgaði nokkuð. Þá var einnig sterk eftirspurn í eldsneytishluta samstæðunnar,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningnum.

Afkomuspá stjórnenda fyrir yfirstandandi rekstrarár, þ.e. frá mars 2024 til febrúar 2025, gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 13,8-14,3 milljarðar króna. Þá nemur fjárfestingaráætlun á tímabilinu 4,5-4,8 milljörðum króna.

Finnur: Horfum til nýrra tekjustrauma

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir að þróun og rekstur samstæðu Haga á fjórðungnum og síðasta rekstrarári endurspegli að stefnumótandi áherslur síðustu ára og aðgerðir til að styrkja félagið hafi gefist vel.

Til skemmri tíma verði eitt mikilvægasta verkefnið að vinna áfram gegn verðhækkunum í dagvöru „þar sem enn er töluverður hækkunarþrýstingur á aðfangahliðinni“.

„Það hefur verið stígandi í rekstri samstæðu Haga og heilt yfir gengið vel á undanförnum árum, með áherslu á að auka skilvirkni rekstrar og styrkja helstu einingar,“ segir Finnur í afkomutilkynningu Haga.

„Við munum ekki kvika frá þessum áherslum á næstu misserum, en sem viðbót þá munum við í auknum mæli horfa til tækifæra í að byggja nýja tekjustrauma, bæði tengt núverandi starfsemi í verslun með matvöru og eldsneyti og nýjum stoðum til viðbótar við okkar kjarnastarfsemi í dag.“