Eignarhaldsfélagið Hagar, sem á meðal annars Bónus og Hagkaup, undirbýr nú að hefja heildsölu áfengis. RÚV greindi fyrst frá þessu.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir heildsöluna hafa verið til skoðunar í nokkur ár, og að hún sé til komin í tengslum við hið svokallaða áfengisfrumvarp sem er til skoðunar á Alþingi.

Þá hefur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins staðfest að Hagar verslanir ehf., dótturfyrirtæki Haga, hafi gert stofnsamning um heildsöluna, og að fyrirtækið sé með vörur í umsóknarferli.

Hvað varðar áfengisfrumvarpið segir Finnur að hann telji Haga betur undirbúna með heildsöluna til staðar.