Tveir af stærri bönkum Bretlands, HBOS og Royal Bank of Scotland (RBS) voru að hruni komnir í annarri viku október mánaðar vegna erfiðleika við endurfjármögnun og lausaféskorts.

Ef ekki hefði komið til inngripa stjórnvalda hefðu bankarnir hrunið.

Þetta kemur fram á vef BBC en því má við bæta að þetta var í sömu viku og íslensku bankarnir hrundu hver á eftir öðrum.

Í umfjöllun BBC kemur fram að í „venjulegu“ árferði er öllu jafna ekki erfitt fyrir stóra banka að endurfjármagna sig en nú ríkir ekkert venjulegt árferði á mörkuðum. Bankarnir tveir neyddust því til að fá lán og tryggingar hjá breskum skattgreiðendum.

Eftir krísufundi með stjórnendum bankanna ákvað breska fjármálaráðuneytið í samstarfi við Englandsbanka að tryggja bönkunum um 350 milljarða breskra punda með lánum og tryggingum til að koma í veg fyrir hrun þeirra.

„Tíminn var naumur. Yfirvöld kynntu björgunarmöguleika sína og bankarnir þurftu að samþykkja það,“ segir Sir John Gieve, aðstoðarbankastjóri Englandsbanka í viðtali við Robert Peston, viðskiptaritstjóra BBC.

„Við mátum aðstæður og reiknuðum saman hvað til þyrfti til og í raun var bara einn aðili sem gat komið til hjálpar [skattgreiðendur].“

Þá greindi Gieve frá því í viðtalinu að Fred Goodwin, bankastjóri RBS hefði sagt við yfirvöld að þarna væri um árás yfirvalda að ræða frekan en samningaviðræður. (e. it's more a drive-by shooting than a negotiation)

Í frétt BBC kemur fram að RBS hefur þegar fengið að láni 20 milljarða punda en HBOS mun í bráð fá um 17 milljarða punda.

Þá segir Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands í viðtali við BBC að í byrjun október hafi stjórnvöld neyðst til að koma bankakerfinu til bjargar.

„Við gátum ekki komið okkur í þær aðstæður þar sem við værum eingöngu að laga eitt vandamál í einu því þannig hefðum við velt vandamálunum áfram,“ segir Darling í samtali við BBC.

„Í umræddri viku [aðra vikuna í október] versnaði ástandið til muna sem gerði það auðveldara fyrir okkur að tala við bankana og láta þá vita að við værum í þessu saman.“