

Hlutabréf Unity Software, félags Davíðs Helgasonar, hafa nær þrefaldast að verðmæti frá því að félagið var skráð í kauphöll New York, þann 18. september síðastliðinn. Bréfin náðu hámarki fyrir opnun markaða vestanhafs á þriðjudag og stóðu þá í 154 Bandaríkjadollurum en útboðsgengið var 52 dollarar.
Áður en félagið var skráð á markað hafði útboðsgengið verið hækkað ítrekað. Upphaflega stóð til að verðbilið yrði 34-42 dalir sem var síðan hækkað í 44-48 dali og síðan aftur í 52 dali.
Þegar hvert hlutabréf stóð í 154 dollurum nam markaðsvirði Unity um 41 milljarði dollara, andvirði um 5.300 milljarða króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Í fjármögnunarumferð félagsins á síðasta ári var Unity metið á um sex milljarða dollara, eða sem nemur um 774 milljörðum króna. Því hefur virði Unity nær sjöfaldast á rúmlega einu ári.
Davíð á 10,4 milljónir hluta í félaginu eða sem samsvarar fjögur prósent hlut. Eignarhlutur Davíðs, miðað við að hvert bréf sé virði 154 dollara, er virði 1,6 milljarða dollara. Miðað við núverandi gengi krónunnar eru það um 207 milljarðar króna. Markaðsvirði Arion banka, sem er næst verðmætasta skráða fyrirtækið á Íslandi, er um 157 milljarðar króna. Hlutur Davíðs í Unity er því ríflega þriðjungi verðmætari en Arion banki.
Samkvæmt auðmannalista Forbes er Björgólfur Thor Björgólfsson, sem lengi vel hefur verið ríkastur allra Íslendinga, metinn á um 2,3 milljarða dollara. Í krónum talið er það um 297 milljarðar króna eða rúmlega 40% prósent meira en hlutur Davíðs í Unity er metinn á. Samkvæmt áðurnefndum lista er Björgólfur nú um mundir 1.063 ríkasti einstaklingur heims en auður hans var metinn á um 3,5 milljarða dollara árið 2007.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er: