Útflutningur á hrossakjöti þrefaldaðist á milli ára í fyrra. Meira af hrossakjöti er flutt úr landi en selt hér á landi. Kjötið er aðallega selt til Rússlands, Ítalíu, Sviss og Frakklands. Heildarframleiðsla á hrossakjöti nam 1.500 tonnum í fyrra sem var 71,1% meira en árið 2010. Salan jókst á sama tíma um 23,3%. Sala á kjötinu úr landi nam 875,6 tonnum í fyrra og var það 180,9% aukning á milli ára.

Hulda Geirsdóttir hjá Félagi hrossabænda, segir í samtali við Fréttablaðið ástæðuna aukinn kostnað vð að halda reiðhesta auk þess þess sem gríðarleg aukning sé eftir hrossakjöti. Meira sé sótt í það en áður að slátra hrossum því dýrt sé að halda þau. Hún segir m.a. hrossarækt til manneldis oftast fara fram meðfram reiðhestaræktun enda hesturinn aðallega álitinn tómstundagaman meðal Íslendinga. Hulda bendir hins vegar á að hrossakjöt sé góð hliðarafurð með reiðhestaræktun og nauðsynleg til þess að halda gæðum í reiðhestarækt.