Seðlabankinn mun tilkynna um stýrivaxtaákvörðun sína á morgun samhliða útáfu Peningamála þar sem sýn bankans á þróun og horfum í efnahagsmálum er kynnt ásamt nýrri þjóðhags og verðbólguspá.

Greiningaraðilar búast við að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum í 14% en Glitnir útilokar þó ekki vaxtahækkun um 0,25 prósentustig. Þá telur greiningardeild Danske bank að ekki sé ólíklegt að Seðlabankinn hækki vexti um 25 punkta á morgun.

Greiningaraðilar telja að í ljósi þess að gengi krónunnar hefur hækkað mikið síðustu vikur og útlit sé nú fyrir betri verðbólguhorfur og lækkun íbúðaverðs gæti Seðlabankinn litið svo á að ekki sé þörf á frekari vaxtahækkun sem stendur.

Greining Glitnis telur að Seðlabankinn muni boða aðhald sem aldrei fyrr og útilokar ekki að Seðlabankinn eigi eftir að hækka vexti frekar á næstu mánuðum jafnvel þó að hann láti það ógert að hækka vexti í þetta skiptið. Greiningardeildir Landsbankans og Kaupþings telja hinsvegar að Seðlabankinn muni ekki hækka vexti meira að sinni og að stýrivaxtahækkun Seðlabankans þann 14. september síðastliðinn um 25 punkta upp í 14% stýrivexti hafi verið sú síðasta í núverandi uppsveiflu. En síðasta stýrivaxtahækkun Seðlabankans var sú 17. í röðinni frá því að hækkunarferill stýrivaxta hófst vorið 2004.