„Þetta verða framfarir og allt annað hús,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, um viðamiklar framkvæmdir í Hyrnunni í Borgarnesi. Olíuverslunin tók yfir rekstur Hyrnunnar af Samkaupum um síðustu áramót og setti þá allt á fullt í umsvifamiklum endurbótum á húsinu. Framkvæmdir standa nú yfir og blasir nær fokhelt hús við þeim sem fara í gegnum Borgarnesi. Bensínstöðin er eina plássið í húsinu þar sem starfsemi er í fullum gangi. Stefnt er á að opna nýja N1-stöð í húsinu í maí.

Spurður um umfang framkvæmdanna segir Eggert að allt hafi verið hreinsað út úr Hyrnunni.

„Við rífum ekki húsið. Það var orðið mjög flókið, búið að bæta það hér og þar. En húsið mun standa og grunnlögun þess,“ segir hann.

Hyrnu-nafnið hefur verið lagt niður og mun stöðin framvegis bera heitið N1. „Þetta verður N1 í Borgarnesi,“ segir Eggert í samtali við vb.is.

Óvíst hvað margir verða ráðnir

Þegar lá fyrir í fyrrasumar að leigusamningur Samkaupa á Hyrnunni myndi renna út um áramótin var tíu starfsmönnum í versluninni þar sagt upp. Hermann Guðmundsson, forstjóri N1 á þeim tíma, sagði í kjölfarið að það væri stefna N1 að reka alla skála við þjóðveginn sjálfa. Þeim sem hafi verið sagt upp verði boðin vinna á nýrri N1-stöð.

Eggert segir í samtali við vb.is í dag ekki liggja fyrir hversu marga N1 ætli að ráða þegar nýja stöðin í Borgarnesi verður opnuð í maí.