Icelandair hefur ákveðið að auka áætlunarflug til og frá Gatwick í London og mun frá og með 13. september í haust fljúga fjórum sinnum í viku til og frá flugvellinum. Icelandair hóf að fljúga á Gatwick í október á síðasta ári, þá tvisvar sinnum í viku. Þriðja vikulega flugið bætist við í vor og hið fjórða í haust. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair í dag.

„Þær góðu viðtökur sem Gatwick flugið hefur fengið eru mjög ánægjulegar,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. „Heathrow er okkar aðalflugvöllur í London og verður það áfram, þangað fljúgum við 14 sinnum í viku. Gatwick gefur hinsvegar kost á frekari vexti í London, sem er ekki til staðar á Heathrow, og að jafna árstíðarsveiflu og fjölga ferðamönnum á Íslandi yfir vetrarmánuðina. Auk þess erum við að byggja upp nýja markaði fyrir tengiflug okkar til Norður-Ameríku með viðkomu á Íslandi.“

Flogið er frá Keflavíkurflugvelli til Gatwick að morgni á þriðjudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum.