Alþjóðalega vísitölufyrirtækið FTSE Russell hefur ákveðið að færa Ísland upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets). Ný flokkun tekur gildi við opnun markaða mánudaginn 19. september næstkomandi. Áætlað er að fimmtán fyrirtæki á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland verði þá tekin inn í FTSE Global All Cap vísitöluna.

Í tilkynningu sem Nasdaq sendi frá sér í gærkvöldi segir að uppfærsla Íslands í flokk með nýmarkaðsríkjum muni greiða fyrir innflæði „verulegs fjármagns“ inn í íslenskt efnahagslíf og þar með stutt við fjármögnunarmöguleika skráðra fyrirtækja.

„Þetta eru gríðarlega stór tímamót fyrir íslenska hlutabréfamarkaðinn og afar góðar fyrir fréttir fyrir efnahagslífið,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Ákvörðun FTSE er viðurkenning á því gríðarmikla starfi sem markaðsaðilar hafa lagt af mörkum til að styrkja íslenska markaðinn innan hins alþjóðlega fjármálamarkaðar.

Mikilvægar skráningar fyrirtækja undanfarin ár, aukinn seljanleiki og ýmsar aðrar umbætur á markaði hafa jafnt og þétt aukið áhuga innlendra og alþjóðlegra fjárfesta og nú leitt til þessarar ánægjulegu niðurstöðu.“

Tilkynnt verður um hvaða fimmtán fyriræki á aðalmarkaðnum verða tekin inn í FTSE Global All Cap vísitöluna þann 19. ágúst næstkomandi. Mun það byggja á hálfárslegri endurskoðun sem tekur mið af gögnum frá fyrstu sex mánuðum ársins. Þau íslensku verðbréf sem áætlað er að verði tekin inn í vísitöluna, miðað við gögn á seinni hluta síðasta árs, eru:

Mid cap:

  • Arion banki
  • Marel

Small cap:

  • Eik
  • Eimskip
  • Hagar
  • Icelandair
  • Íslandsbanki
  • Kvika banki
  • Festi
  • Reginn
  • Reitir
  • Síldarvinnslan
  • Síminn
  • Sjóvá
  • VÍS

„Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur verið í vexti undanfarin ár,“ segir Bjørn Sibbern, forstjóri evrópskra markaða hjá Nasdaq. „Færsla upp í flokk nýmarkaðsríkja er vísbending um þá tiltrú sem ríkir um áframhaldandi vöxt. Hún gæti aukið enn frekar áhuga á íslenska hlutabréfamarkaðnum og efnahagslífi og skapað ný tækifæri fyrir fyrirtæki og fjárfesta. Ég óska Nasdaq Iceland og viðskiptavinum okkar til hamingju með þennan mikilvæga áfanga.“