Umsóknarfrestur um losunarheimildir á koldíoxíði rann út um síðustu mánaðamót án þess að Járnblendiverksmiðjan á Grundartangi sækti um heimild til losunar eins og kemur fram í fréttt Viðskiptablaðsins í dag. Orku- og iðnfyrirtæki sem losa meira en 30 þúsund tonn af koldíoxíði árlega þurfa að sækja um sérstakar losunarheimildir til Umhverfisstofnunar. Fjögur fyrirtæki sóttu um heimildir vegna áætlaðrar losunar koldíoxíðs á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012.

Járnblendiverksmiðjan losaði árlega tímabilið 2000-2005 á milli 355 og 390 þúsund tonn. Aðspurður segir Ingimundur Birnir, forstjóri Járnblendiverksmiðjunnar, að ekki standi til að leggja niður rekstur verksmiðjunnar. Þvert á móti hafi verið unnið að mikilli uppbyggingu og fjárfest í nýjum búnaði fyrir um þrjá milljarða króna. Um tæknileg mistök hafi verið að ræða "Ég var að heyra af þessu máli rétt í þessu og það hafa orðið einhver mistök í ferlinu hjá okkur. Við munum að sjálfsögðu sækja um þótt umsóknarfrestur sé sagður útrunninn á heimasíðu Umhverfisstofnunar," segir Ingimundur.


"Þetta eru tæknileg mistök af okkar hálfu en við erum komnir á fulla ferð með að leiðrétta málið." Hann kvaðst ekki kannast við að Járnblendiverksmiðjan hafi fengið formlega kvaðningu um að sækja um þetta leyfi. "Ég get hins vegar ekki fullyrt að hún hafi ekki borist okkur. Við erum að skoða málið núna," segir Ingimundur.


Hann segir að Járnblendiverksmiðjan eigi sér mjög bjarta framtíð. "Við erum að auka verulega verðmæti þeirrar framleiðslu sem við skilum frá okkur. Við höfum farið inn á nýja markaði. Fyrir hverja einingu af orku sem við tökum inn stóraukum við verðmætið. Við erum að stækka fyrirtækið og núna erum við að fjárfesta í tækjum og búnaði fyrir þrjá milljarða króna. Ég held satt að segja að framtíð Járnblendiverksmiðjunnar hafi aldrei verið jafn björt og í dag," segir Ingimundur.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.