Samþjöppun tekna á milli tekjutíunda jókst milli ára samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um tekjudreifingu. Gini-stuð­ullinn, eftir áhrif skatta og bóta, mældist þannig 22,7 stig árið 2014 en var 24,0 stig árið 2013.

Jöfnuður hefur aldrei verið meiri hér á landi, sé litið til mælinga OECD sem ná aftur til ársins 2004. Tekjuhæstu Íslendingarnir hafa rúmlega fjórfalt hærri tekjur en þeir tekjulægstu, þegar ekki er gert ráð fyrir áhrifum skatta og bótakerfa, en um 2,5 sinnum hærri séu þau tekin með í reikninginn. Munurinn minnkar sé gert ráð fyrir tekjujöfnunaráhrifum opinberrar þjónustu.

Greining Viðskiptaráðs, sem ráðið birti í vikunni, leiðir í ljós að tekjuhæstu Íslendingarnir hafa minna en tvöfalt hærri tekjur en þeir sem eru í tekjulægstu tíund, séu áhrif skatta, bóta og opinberrar þjónustu tekin með í reikninginn. „Í því tilfelli er heildarávinningur (ráðstöfunartekjur auk opinberra útgjalda) 465 þús. kr. á mánuði hjá þeim tekjulægstu samanborið við 647 þús. kr. að meðaltali og 886 þús. kr. hjá þeim tekjuhæstu,“ segir í greiningu ráðsins.