Qatar Investment Authority - fjárfestingafélag í eigu stjórnvalda þar í landi - sendi í gær beiðni til sænska fjármálaeftirlitsins um að auka hlut sinn í norrænu kauphöllinni OMX, en þetta hefur aukið líkurnar á hugsanlegu verðstríði um OMX. Aðeins er vika síðan bandaríska kauphöllin Nasdaq og kauphöllin í Dubai - sem hafa í sameiningu lagt fram yfirtökutilboð í OMX - greindu frá því að helstu hluthafar OMX hefðu samþykkt nýtt og hærra tilboð félaganna. Stóru hluthafarnir sem um var að ræða, samkvæmt frétt Financial Times, voru Investor AB, eignarhaldsfélag Wallenberg fjölskyldunnar sem á 10,7% hlut í OMX, Nordea bankinn, sem á 5,2% hlut, háttsettir stjórnendur kauphallarinnar og sænsk stjórnvöld, sem ráða yfir 6,6% hlut.

Katarski fjárfestingasjóðurinn keypti í síðasta mánuði 9,98% hlut í OMX, en samkvæmt hlutafélagalögum verður að óska sérstaklega eftir því við samkeppnisyfirvöld til að eignast meira en 10% hlut í sænsku fyrirtæki. Í bréfi Katara til sænska fjármálaeftirlitsins kemur fram að félagið óski eftir að "kaupa stærri hlut í OMX, sem gæti leitt til 100% eignahlutar í kauphöllinni".

Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir Thomas Johansson, sérfræðingi hjá Kaupþingi í Stokkhólmi, að þessi beiðni frá Katar gæti verið til vitnis um að félagið vilji komast yfir meira en 10% hlut í OMX, til að tryggja að það þurfi ekki að innleysa hlut sinn til Nasdaq og Duba, fái félögin samþykki 90% hluthafa OMX. Tækist það væri Katar knúið til að selja hlut sinn til Nasdaq og Dubai á 265 sænskar krónur, en í gær stóð gengi bréfanna í ríflega 281 krónu.

Hinn möguleikinn er hins vegar að með þessu móti sé Katar að undirbúa jarðveginn fyrir yfirtökutilboð í allt félagið, segir Johansson. Samkvæmt þeim skilmálum sem voru gerðir þegar Nasdaq og Dubai komu fram með nýtt og hærra tilboð í OMX, er öllum hluthöfum sem samþykktu að selja hlut sinn á 265 sænskar krónur, leyfilegt að gangast við öðrum tilboðum sem gætu borist síðar - að því gefnu að þau hljóði upp á minnsta kosti 303 sænskar krónur á hlut.