Kauphöll Íslands rannsakar hvort Landsbankinn [ LAIS ] hafi haft meiri upplýsingar undir höndum en aðrir fjárfestar skömmu áður en ríkistjórnin tilkynnti um umfangsmiklar breytingar á Íbúðalánasjóði eftir lokun markaða 19. júní.

Sama dag seldi Landsbankinn mun meira af húsbréfum en hann keypti. En í kjölfar breytinganna lækkuðu íbúðabréf í verði.

„Það er ekki að frétta [af málinu] annað en  að það er í vinnslu og við reynum að hraða því eins og við getum,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, í samtali við Viðskiptablaðið um hádegi í dag.

Kauphöll Íslands hefur borist formlegt erindi frá fjármálafyrirtæki vegna téðrar sölu Landsbankans á íbúðabréfum auk óformlegra ábendinga. Þórður staðfestir það.

Í samantekt Morgunblaðsins á umfangi viðskipta markaðsaðila með íbúðabréf 19. júní kemur fram að Landsbankinn seldi mikið af íbúðabréfum umfram það sem bankinn keypti. Mismunurinn þarna á milli er tæplega 4,2 milljarðar króna og umfram það sem var aðra daga í júní.

Til samanburðar seldi Kaupþing 105 milljónum meira af íbúðabréfum en keypt voru. Glitnir keypti hins vegar nettó 200 milljónir.

Aðspurður segir Þórður Kauphöllina ýmist rannsaka mál af þessu tagi að eigin frumkvæði eða í kjölfar kvartana. „Í þessu tilviki hefur hinsvegar borist formlegt erindi til Kauphallarinnar. Þar er reifuð sú hugsun að þarna hafi verið ójafnræði meðal fjárfesta þegar tilkynnt var um aðgerðir ríkistjórnarinnar varðandi Íbúðalánasjóð,“ segir Þórður.

Morgunblaðið hefur undir höndum tölvupóst sem sendur var stjórn og varastjórn Samtaka fjármálafyrirtækja frá skrifstofu samtakanna um yfirvofandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 19. júní.

Samkvæmt tímaskráningu bréfsins var það sent tuttugu mínútum fyrir lokun gjaldeyrismarkaða klukkan 16. Þar var meðal annars útlistuð tillaga um útgáfu á ríkisbréfum til að draga úr þrýstingi á gjaldeyrismarkaðinn. Á þeim tíma var búið að loka mörkuðum með skuldabréf og hlutabréf.