Kaupþing fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir. Til að fagna tímamótunum var ákveðið að blása til stórtónleika á Þjóðarleikvanginum, Laugardalsvelli í Laugardal föstudagskvöldið 17. ágúst.


Flestir af þekktustu skemmtikröftum þjóðarinnar munu koma fram. Má þar nefna: Bubba Morthens, Stuðmenn, SSSÓL, Björgvin Halldórsson, Garðar Thór Cortes, Todmobile, Nylon og stráka söngsveitina Luxor sem kemur fram í fyrsta skipti. Veislustjóri er enginn annar en Páll Óskar Hjálmtýsson.

Í tilkynningu vegna tónleikanna kemur fram að tónleikarnir eru með þeim glæsilegustu sem skipulagðir hafa verið í kringum íslenska tónlist. Hljóð og ljósabúnaður verður sá umfangsmesti sem settur hefur verið upp í Laugardal. Risaskjáir hafa verið sér fluttir inn til landsins til að varpa myndrænum þætti tónleikanna sem víðast um Laugardalinn. Sérstakt færanlegt gólf verður flutt inn frá Wembley leikvanginum í Bretlandi til að hlífa grasinu í Laugardal. Fimm, 40 feta gámar með þessu sérstaka gólfi eru á leið til landsins.

Þeir sem ekki eru ferðafærir föstudagskvöldið 17. ágúst þurfa ekki að örvænta því tónleikarnir verða sýndir í beinni útsendingu í Sjónvarpinu og hefst útsendingin strax að loknu Kastljósi og stendur til loka tónleikanna um klukkan 23:00.

Hljómsveitirnar og söngvarana þarf vart að kynna. Bubbi Morthens er án efa stærsta nafn í íslenskri tónlist. Stuðmenn eru hljómsveit allra landsmanna og ekki af ástæðulausu. Björgvin Halldórsson er ástsælasti dægurlagasöngvari landsins. SSSÓL fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir og hefur verið ein fremsta stuðhljómsveit landsins allan þann tíma. Todmobile er ein flottasta hljómsveit landsins með Andreu, Eyþór og Þorvaldi í broddi fylkingar. Páll Óskar er einn ástælasti skemmtikraftur þjóðarinnar. Fáir geta státað af sama árangri og Nylon söngsveitin hér eða erlendis. Óskarbarn þjóðarinnar Garðar Thór Cortes náði í vetur fyrsta sætinu á Breska klassíska listanum. Síðan er það söngsveitin Luxor sem kemur þarna fram í fyrsta sinn.