Kínversk yfirvöld vinna nú að því að byggja fyrstu verksmiðju í heimi sem hefur það markmið að fjöldaframleiða gervihnetti. Hin svokallaða Satellite Gigafactory verður staðsett á eyjunni Hainan í suðurhluta Kína.

Áætlað er að árleg framleiðslugeta verksmiðjunnar verði í kringum þúsund gervihnettir en hátt í 30 sérfræðingar vinna nú að verkefninu.

Zhang Chenghao, forstöðumaður kínverska nýsköpunarráðuneytisins, segir að gervihnettir hafi áður fyrr verið framleiddir víðs vegar um Kína og síðan fluttir til Hainan. Eftir það þurftu gervihnettirnir að gangast í gegnum annað öryggispróf áður en hægt var að skjóta þeim á loft.

Gervihnattaverksmiðjan, sem er undir leiðsögn Wenchang International Space City Administration í borginni Wenchang, er nú komin á lokastig eftir rúmlega fimm mánaða undirbúning. Áætlunin er að fjöldaframleiða gervihnetti með svipuðum hætti og bíla.

Sérfræðingar segja að framleiðsluferlið muni hjálpa við að draga úr kostnaði og auka framleiðslugetu gervihnatta í framtíðinni.

Stofnunin hefur einnig það markmið að byggja upp geimferðaþjónustu og segir borgarstjóri Wenchang, Liu Chong, að skotpallurinn verði einn sá fullkomnasti í heiminum. „Við stefnum að því að byggja upp heimsklassa geimskotsvæði og heimsklassa geimvísinda- og tækniborg.“