Rekstrarreikningur ársins 2004

Um 30 þúsund dollara hagnaður varð af rekstri Medcare Flögu á liðnu ári, en tap varð af rekstrinum á fyrri hluta árs en hagnaður á síðari hluta.

Tekjur á árinu 2004 námu USD 26,4 milljónum, sem er 38% aukning frá árinu á undan. Félagið keypti bandaríska svefnrannsóknafyrirtækið SleepTech á árinu og telst SleepTech með í samstæðuuppgjörinu frá og með júnímánuði 2004. Rekstur SleepTech var í samræmi við þær væntingar sem voru gerðar til fyrirtækisins þegar það var keypt.

Framlegð rekstrartekna var 64%, samanborið við 61% árið á undan. Rannsókna- og þróunarkostnaður nam 2,5 milljónum, sem er sama fjárhæð og árið á undan og samsvarar 10% af tekjum 2004, samanborið við 13% af tekjum árið 2003.

Tap var af rekstri félagsins á fyrri árshelmingi en hagnaður af seinni helmingi árs. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, eða EBITDA framlegð, fyrir árið í heild var USD 879 þúsund og rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda, eða EBIT, var neikvæður um USD 342 þúsund. Breytingar á árinu 2004 hafa aukið vissu um notkun reiknaðrar skattinneignar. Þess vegna hefur reikningsskilaaðferð félagsins verið breytt og skattinneign er nú eignfærð. Því voru skattaliðir jákvæðir um USD 583 þúsund á árinu. Hagnaður ársins nam USD 30 þúsund.