*

mánudagur, 27. september 2021
Erlent 3. júlí 2021 16:50

Lögsóknum gegn Facebook vísað frá dómi

Dómsmáli sem bandarísk alríkisyfirvöld auk flestra fylkja höfðuðu gegn samfélagsmiðlarisanum var vísað frá.

Ritstjórn
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook.
epa

Lögsóknum bandaríska alríkisins og flestra fylkja gegn Facebook fyrir samkeppnislagabrot var vísað frá fyrir alríkisdómstól. Frávísunin er sögð stórsigur fyrir samfélagsmiðlarisann, hvers hlutabréf hækkuðu um 3,7% í kjölfarið.

Dómarinn sagði lögsóknina ekki bera félagið nógu þungum sökum til að uppfylla skilyrði einokunartilburða, en gaf þó ákæruvaldinu tækifæri á að bæta úr því. Yfirvöld fengu 30 daga til að leggja málið fram að nýju, eftir að búið væri að bæta úr aðfinnslum dómarans.

Eitt af markmiðum yfirvalda í málinu er að snúa við yfirtöku Facebook á samfélagsmiðlinum Instagram og spjallforritinu WhatsApp.

Í málshöfðun Neytenda- og samkeppnisstofu (e. FTC) hélt stofnunin því fram að Facebook hafi gerst brotlegt við samkeppnislög með uppkaupum á upprennandi samkeppnisaðila á samfélagsmiðlamarkaðnum.

Dómarinn taldi ákæruvaldið hinsvegar ekki hafa sýnt nógu vel fram á meginmálatilbúnað sinn: að Facebook hefði einokunarafl á markaðnum.

Stikkorð: Facebook FTC