Væntanlegir farþegar hins endurreista Wow Air eiga von á góðu ef marka má viðtal fréttavefsins MSN við eiganda félagsins, Michele Ballarin, sem birtist í dag. Þar segir Ballarin að stefna félagsins sé að bjóða upp fyrsta farrými (e. premium economy) frá fyrstu sætaröð til þeirrar síðustu. „Markmiðið er að gera flug skemmtilegt á ný,” segir Ballarin.

„Premium economny” er farrými þar sem þjónusta og þægindi eru betri en á almennu rými en lakari en á „business class”. Þannig er fótarými að jafnaði um 15 cm meira en í almennu sæti en ekki er hægt að halla sætum alveg aftur eins og á “business class”.

Matgæðingar geta hugsað sér gott til glóðarinnar því matreiðslumeistarinn Roger Wiles hefur tekið að sér að skapa matseðil félagsins. Wiles er frægur sjónvarpskokkur vestan hafs og kom m.a. fram í þáttunum Great Chefs. Matseðilinn mun vera nýstárlegur og byggja á hreinu og einföldu hráefni og innihalda lítið af sykri og kolvetnum. Þá hefur Wow fengið kaffihúsið Julius Meinl í Vínarborg til liðs við sig við til að þróa kaffi og eftirrétti á nýja matseðilinn.

Lúxusinn verður þó ekki eingöngu bundin við háloftin því þjónustan við farþega verður einnig fyrsta flokks á flugvellinum. Þannig sé stefnt að því að útbúa hliðin til brottfarar með tölvubúnaði sem þekki andlit farþega þannig ekki verði lengur þörf á að bíða þar í röð með vegabréf og brottfararspjöldin klár. Farangur verður merktur með sérstökum útvarpssendi (radio-frequency identification) þannig að hægt verður að fylgjast með farangrinum í rauntíma í snjallsímum. Loks er Gunnar Hilmarsson fatahönnuður nefndur til sögunnar en hann hefur tekið að sér að hanna nýja búninga flugáhafnarinnar.

Í ljósi þess hvað þjónustustig hins nýja Wow mun vera hátt er nema von að menn spyrji sig hvort félagið geti áfram verið lágfargjaldaflugfélag. Aðspurð að þessu svarar Ballarin einfaldlega að Wow Air muni bjóða upp á lágfargjaldaflug. Blaðamaður MSN segist í lok greinarinnar ekki alveg sannfærður um að það verði raunin en hann sé þó vongóður.