Lyfja hefur gert samning við Origo um að innleiða rafræna hillumiða frá SES-imagotag í verslanir sínar. Í tilkynningu segir að Lyfja sé fyrsta fyrirtækið á Íslandi til þess nýta sér, í bland við hefðbundna hillumiða, nýja kynslóð af rafrænum hillumiðum sem kallist Vusion Rail.

Með þessum hillumiðum geta verslanir nú auglýst söluherferðir og kynningarmyndbönd samhliða hefðbundnu vöruverði.

,,Við skoðuðum helstu lausnir á markaðnum og völdum SES-imagotag vegna verðs, skýjalausnar og möguleika hugbúnaðarins. Eins er SES stærsti aðilinn á markaðnum á heimsvísu og stækkar hratt,” segir Þorvaldur Einarsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Lyfju.

Talsmenn Vusion Rail halda því fram að viðskiptavinir upplifi gjarnan meiri tengingu við vörur í gegnum lifandi myndefni og framsetningu en Vusion Rail birtir auglýsingar og verðupplýsingar á þunnum LCD skjáum.

,,Vusion Rail er fullkomin leið til að auka sýnileika á verðmætum vörumerkjum. Með þessari lausn er hægt að keyra söluherferðir samhliða verði og þannig samnýta markaðsefnið enn betur,” segir Sunna Mist Sigurðardóttir, lausnastjóri hjá Afgreiðslulausnum Origo.