Búst má við því að Vincent Viola, stofnandi og forstjóri bandaríska fjármálafyrirtækisins Virtu bætist fljótlega í hóp milljarðamæringa Bandaríkjanna. Viola á meirihluta hlutafjár í Virtu, sem til stendur að skrá á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn.

Í breska dagblaðinu Financial Times segir að hugsanlegt er að miðað við niðurstöðu hlutafjárútboðs félagsins í aðdraganda skráningar geti markaðsverðmæti Virtu farið í 3 milljarða dala, jafnvirði tæpra 340 milljarða íslenskra króna. Viola á 65% eignarhlut og gæti hann miðað við það setið á 2 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 220 milljarða íslenskra króna.

Viola hóf störf á fjármálamarkaði árið 1982. Tuttugu árum síðar stofnaði hann fyrirtækið Madison Tyler og Virtu árið 2008. Fyrirtækin sameinuðust árið 2011.